Enski boltinn

Jonas gæti byrjað að spila í lok janúar | Undraverður bati

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jonas á æfingu í dag.
Jonas á æfingu í dag. vísir/getty
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle United, segir að Argentínumaðurinn Jonas Gutierrez gæti byrjað að spila með aðalliði félagsins í lok janúar.

"Hann mun sennilega ekki koma við sögu í leikjunum um jólin, en hann gæti komið inn í liðið undir lok janúar eða í febrúar," sagði Pardew en Jonas lék sinn fyrsta leik síðan í apríl þegar hann spilaði 87 mínútur með U-21 árs liði Newcastle í 4-1 sigri á West Ham á mánudaginn.

Jonas, sem er 31 árs, greindist með eistnakrabbamein og í september gekkst hann undir aðgerð í heimalandinu þar sem vinstra eista hans var fjarlægt. Jonas gekkst í kjölfarið undir lyfjameðferð. Hann var svo útskrifaður í byrjun nóvember og byrjaði fljótlega að æfa með aðalliði Newcastle.

"Þetta er búið að vera langt ferli svo við erum mjög ánægðir," sagði Pardew um Jonas sem gekk til liðs við Newcastle árið 2008. Hann hefur leikið tæplega 200 leiki fyrir félagið og skorað 11 mörk.

"Hann er vel á sig kominn líkamlega og þarf bara að komast aftur í leikform. Það ætti ekki að taka langan tíma, jafnvel enn styttri en áætlað er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×