Enski boltinn

Gylfi: Þurfum að vera betri í útileikjunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson segir að Swansea verði að spila betur á útivelli en liðið hefur gert í síðustu leikjum. Swansea tapaði um helgina fyrir West Ham í Lundúnum, 2-1.

Gylfi og félagar hafa unnið aðeins einn útileik á tímabilinu en það var í fystu umferð tímabilsins er Gylfi skoraði sigurmarkið í 2-1 sigri Swansea á Manchester United á Old Trafford.

„Þetta var pirrandi á föstudag,“ sagði Gylfi Þór í viðtali sem birtist á heimasíðu Swansea en Swansea komst yfir í leiknum rétt eins og í fimm af þeim átta útileikjum sem liðið hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni til þessa.

„Þetta var af einhverjum ástæðum erfitt fyrir okkur. Kannski spiluðum við ekki boltanum nógu vel eða að þeir náðu að setja góða pressu á okkur. En þetta var erfiður leikur.“

„Við höfum mætt sterkum liðum í útleikjum í haust - Everton, Chelsea, Manchester City, Manchester United og það var svo ekki auðvelt að fara til WEst Ham.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að athuga því við verðum að safna stigum á útivelli líka ef við ætlum okkur að vera með efstu liðum í deildinni.“

Gylfi verður væntanlega í eldlínunni þegar Swansea mætir hans gamla félagi, Tottenham, á heimavelli um helgina. „Það er gott að fá tækifæri til að komast aftur á beinu brautina gegn einu besta liði deildarinnar. Okkur hefur gengið vel heima og vonandi verður áframhald á því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×