Erlent

Heitir því að rannsaka hversu margir Afganir voru pyntaðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forseti Afganistan, Asraf Ghani
Forseti Afganistan, Asraf Ghani Vísir/Getty
Forseti Afganistan, Asraf Ghani , segir að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafi brotið öll viðtekin viðmið varðandi mannréttindi með pyntingum sem stundaðar voru á föngum í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana 11. september 2001.

Á blaðamannafundi í gær sagði Ghani skýrslu Leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings um pyntingarnar átakanlega. Hann sagði ekkert réttlæta svo grimmilegar aðferðir við yfirheyrslur eins og lýst er í skýrslunni. Þá lofaði  hann að rannsaka hversu margir Afganir hafi verið pyntaðir af bandarísku leyniþjónustunni í fangelsum hennar í Afganistan.  

Ghani er einn fjölmargra þjóðarleiðtoga sem gagnrýnt hafa leyniþjónustuna eftir að skýrslan kom út á þriðjudag.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þær upplýsingar sem hafi fengist með pyntingum hafi aldrei verið notaðar til að koma í veg fyrir árásir eða yfirstandandi ógnir. Þá hafi að minnsta kosti 26 þeirra 119 sem pyntaðir voru aldrei brotið af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×