Innlent

Sakar Guðlaug Þór um að vera skoðanabróðir Steingríms J.

Jakob Bjarnar skrifar
Vík milli vina. Samkvæmt Valhallarlógíunni er vart hægt að hugsa sér meiri svívirðingar en einmitt þær að líkja einhverjum við Steingrím J. eða vitna í hann. Ingvi Hrafn vænir Guðlaug Þór um einmitt það.
Vík milli vina. Samkvæmt Valhallarlógíunni er vart hægt að hugsa sér meiri svívirðingar en einmitt þær að líkja einhverjum við Steingrím J. eða vitna í hann. Ingvi Hrafn vænir Guðlaug Þór um einmitt það.
Vík virðist milli vina og bræðra í Sjálfstæðisflokknum en þrætueplið er RÚV ohf. Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnaformaður RÚV og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn, sendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, harðar glósur í grein í Morgunblaðinu í morgun. Þessi skrif hans hafa vakið nokkra athygli.

Undirliggjandi þræta er snúin en Guðlaugur Þór Þórðarson hefur undanfarna daga kvartað undan því sem hann segir rangfærslur fréttastofu RÚV ohf., þá er snúa að staðhæfingum hans um framlag ríkisins til þessa ríkisfjölmiðils. Vinir Guðlaugs Þórs á Facebook héldu að botn væri kominn í málið, þegar þingmaðurinn tilkynnti að gott væri „hjá fréttastjóra RÚV að leiðrétta fréttina.“ Og hann vísar í nýja frétt RÚV þar sem segir:

„Árið 2010 var innheimtan hins vegar 213 milljónum króna hærri en framlagið til RÚV. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur réttilega bent á að árin 2009 og 2010 hafi RÚV í raun fengið samtals 160 milljónir króna umfram það sem á endanum innheimtist af útvarpsgjaldi og því fengið framlag sem nemur útvarpsgjaldinu og gott betur.“

Guðlaugur verði að sætta sig við ábendingar um útúrsnúning

Hins vegar er hætt við að þeir sem lásu Morgunblaðið hafi aðra mynd af þessu en þingmaðurinn. Þar er nefnilega grein eftir Ingva Hrafn undir fyrirsögninni „Rökþrot þingmanns“. Þar heldur Ingvi Hrafn því fram að Guðlaugur Þór hafi að undanförnu sett fram hæpnar fullyrðingar um fjármál Ríkisútvarpsins og meðal annars borið brigður á þá kunnu staðreynd, sem greint var frá í fréttatíma Ríkisútvarpsins, að Alþingi hefur jafnan ákveðið í fjárlögum að Ríkisútvarpið fái ekki útvarpsgjaldið óskert. Taldi fréttastofa Ríkisútvarpsins óhjákvæmilegt að árétta frétt sína um útvarpsgjaldið af þessu tilefni.

Ingvi Hafn segir Guðlaug telja sig greinilega „hafa fengið hirtingu sem undan svíður og krefst nú afsökunar frá Ríkisútvarpinu. Vandinn er hins vegar sá að á undanförnum vikum hefur Guðlaugur ítrekað farið með staðlausa stafi um fjármál Ríkisútvarpsins og beitt fyrir sig útúrsnúningum sem hvergi snerta kjarna málsins. Hann verður að sætta sig við að á það sé bent.“

Bréf Ingva Hrafns er harkalegt og hann talar um talnaleikfimi Guðlaugs og þar sem þingmaðurinn „burðast við að reikna út“ hver fjárframlögin eru og einkennilegast sé að Guðlaugur Þór bregðist ekki við með því að leggja fram upplýsingar úr fjárlögum heldur kveður hann Steingrím J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra til vitnis í málinu.

Síðasta hálmstráið

Vart er hægt að hugsa sér meiri móðgun innan Sjálfstæðisflokksins en væna viðkomandi um að vera skoðanabróðir Steingríms, nema ef vera kynni Ögmundar Jónassonar þingmanns VG, en haft hefur verið eftir einmitt Guðlaugi Þór að Ögmundur sé sinn pólitíski áttaviti: Ef hann vísi í norður sé rétt að fara í suður.

„Það skyldi þó ekki vera að Guðlaugur grípi þetta síðasta hálmstrá þegar rökþrot blasir við?“ spyr Ingvi Hrafn í lok síns pistils.

Nú bíða menn viðbragða Guðlaugs Þórs en þetta harkalega bréf Ingva Hrafns má vera til marks um að málefni Ríkisútvarpsins séu að reynast Sjálfstæðisflokknum erfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×