Erlent

Raðmorðingi handtekinn í Rio de Janeiro

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sailson Jose das Gracas var handtekinn af brasilísku lögreglunni í gær.
Sailson Jose das Gracas var handtekinn af brasilísku lögreglunni í gær. Vísir/AFP
Brasilíska lögreglan handtók í gær mann sem hefur játað að hafa drepið 42 einstaklinga á seinustu 10 árum í Rio de Janeiro.

Maðurinn, Sailson Jose das Gracas, var handtekinn stuttu eftir að hann stakk konu til bana í úthverfi borgarinnar. Þá játaði hann að hafa einnig banað 37 öðrum konum, þremur karlmönnum og 2 ára gamalli stúlku.

Í frétt BBC kemur fram að lögreglan leiti nú líkanna af fórnarlömbum mannsins. Telur hún sig hafa fundið fjögur þeirra.

Viðtal lögreglu við Das Gracas var sýnt á sjónvarpsstöð í Brasilíu. Í viðtalinu sagði maðurinn að hann hafi helst viljað að fórnarlömb sín væru hvítar konur, sem hann kyrkti til dauða. Þá sagðist hann hafa fylgst með fórnarlömbum sínum í mánuði áður en hann lét til skarar skríða.

Sérfræðingar telja að Das Gracas sé siðblindur og að fylgjast þurfi vel með honum. Sjálfur segir hann að hann hafi drepið fyrir „adrenalín-kikkið“ sem fylgdi morðunum og að hann muni að öllum líkindum taka til við fyrri iðju sleppi hann einhvern tímann úr fangelsi.

Í október var annar raðmorðingi handtekinn í borginni Goiania í Brasilíu en hann játaði að hafa myrt 39 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×