Enski boltinn

Sögulegt sigurmark Lampards | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Vardy og Bacary Sagna á sprettinum.
Jamie Vardy og Bacary Sagna á sprettinum. Vísir/Getty
Manchester City vann sinn fjórða sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið lagði botnlið Leicester að velli 0-1 a King Power Stadium í dag.

Hinn 18 ára gamli Jose Pozo byrjaði í framlínu Englandsmeistaranna í stað Edins Dzeko sem meiddist í upphitun, en þetta var fyrsti leikur Spánverjans unga í byrjunarliði City.

Manuel Pellegrini, þjálfari City, gerði alls sex breytingar á liðinu sem vann Roma á miðvikudaginn í Meistaradeild Evrópu, en meðal þeirra sem komu inn voru Vincent Kompany (sem fór svo meiddur af velli í seinni hálfleik), David Silva og Frank Lampard.

Englandsmeistararnir voru í hlutlausum gír framan af leik, en þeir komust nálægt því að skora þegar Ben Hamer varði skot Yaya Toure frábærlega.

Hamer kom hins vegar engum vörnum við á 40. mínútu þegar Frank Lampard skoraði af stuttu færi eftir sendingu Samirs Nasri.

Þetta var sögulegt mark hjá Lampard, hans 175. í ensku úrvalsdeildinni en hann er nú jafn Thierry Henry í 4. sæti yfir markahæstu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Mark Lampards reyndist vera eina mark leiksins og City fagnaði nauðsynlegum sigri í toppbaráttunni. Liðið er áfram þremur stigum á eftir toppliði Chelsea.

Leicester 0-1 Man City



Fleiri fréttir

Sjá meira


×