Erlent

Rússar ætla ekki að sitja aðgerðalausir ef kemur til frekari þvingana

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Við munum ekki geta látið það ósvarað,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherrann við Interfax.
„Við munum ekki geta látið það ósvarað,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherrann við Interfax. Vísir/AFP
Rússar ætla ekki að sitja aðgerðalausir ef Bandaríkjamenn ákveða að beita þá frekari þvingunum vegna átakanna í Úkraínu. Þetta sagði aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, Sergei Ryabkov, í samtali við rússnesku fréttastofuna Interfax. Reuters greinir frá.

Bandaríska þingið hefur klárað tillögur að hertum aðgerðum gegn rússneskum vopnaframleiðendum og fjárfestum sem eiga hlut í hátækni olíuverkefnum en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki enn skrifað undir aðgerðirnar.

„Við munum ekki geta látið það ósvarað,“ sagði aðstoðarutanríkisráðherrann við Interfax. Hann gaf ekkert upp um hvernig Rússar myndu svara auknum þvingunum.

Samband Rússa og Bandaríkjamanna hafa stirðnað mikið og eru samskiptin í algjöru lágmarki. Ástæðan eru átök á Krímskaga í Úkraínu en stjórnvöld í Moskvu hafa veitt aðskilnaðarsinnum stuðning. Aðskilnaðarsinnar vilja sameinast Rússlandi.

Vesturlönd segjast hafa traustar sannanir fyrir því að Rússar hafi skaffað uppreisnarmönnum vopn en því neita stjórnvöld í Moskvu. Bandaríkin og Evrópusambandsríki hafa undanfarið beitt Rússa ýmsum þvingunaraðgerðum sem svarað hefur verið með takmörkunum á innflutningi til Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×