Enski boltinn

Kompany og Dzeko ekki með fyrr en á nýju ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kompany meiddist aftan í læri gegn Leicester í gær.
Kompany meiddist aftan í læri gegn Leicester í gær. vísir/getty
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, fór meiddur af velli þegar liðið bar sigurorð af Leicester City í gær.

Kompany kenndi sér meins aftan í læri og var skipt af velli þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Martin Demichelis kom inn á í hans stað. Kompany kom inn í liðið gegn Leicester eftir þriggja leikja fjarveru vegna meiðsla sem tóku sig aftur upp í gær.

Belginn sterki var ekki eini leikmaður City helltist úr lestinni í gær, því bosníski framherjinn Edin Dzeko meiddist á kálfa í upphitun. Spánverjinn ungi, Jose Angel Pozo, tók stöðu hans í byrjunarliðinu.

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri City, sagði eftir leikinn í gær að Kompany og Dzeko yrðu að öllum líkindum ekki klárir í slaginn á ný fyrr en á næsta ári.

Kompany og Dzeko eru ekki einu leikmenn City á sjúkralistanum, en þar voru fyrir framherjarnir Sergio Agüero og Stevan Jovetic. Það hefur því kvarnast mikið úr framlínu Englandsmeistaranna að undanförnu.

Pellegrini getur þó glaðst yfir því að David Silva er búinn að ná sér af hnémeiðslum, en hann var í byrjunarliðinu gegn Leicester, í fyrsta sinn síðan í lok október.

City á eftir að spila þrjá leiki á árinu 2014, gegn Crystal Palace, West Brom og Burnley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×