Enski boltinn

Barkley með frábært mark og Everton fór upp fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ross Barkley
Ross Barkley Vísir/AFP
Ross Barkley skoraði stórglæsilegt mark þegar Everton vann 3-1 sigur á Queens Park Rangers í lokaleik sextándu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.

Everton vann þarna langþráðan sigur en liðið hafði aðeins náð í eitt stig í síðustu þremur deildarleikjum sínum. Með sigrinum komst Everton upp í 10. sæti deildarinnar og fór þar með upp fyrir nágranna sína í Liverpool á marktölu.

Queens Park Rangers náði ekki að vinna tvo leiki í röð í fyrsta sinn á tímabilinu en lærisveinar Harry Redknapp eru búnir að tapa öllum átta útileikjum sínum á leiktíðinni og markatalan er -17 (3-20).

Ross Barkley kom Everton í 1-0 með stórglæsilegu marki á 33. mínútu þegar hann lék á varnarmann og lét vaða af löngu færi upp í bláhornið. Boltinn var á uppleið allan tímann og þandi út netmöskvanna.

Kevin Mirallas skoraði annað mark Everton með skoti beint úr aukaspyrnu á 43. mínútu en skotið breytti mikið um stefnu af varnarvegginum.

Steven Naismith skoraði síðan þriðja markið með skalla á 53. mínútu eftir fyrirgjöf frá Aiden McGeady.

Bobby Zamora minnkaði muninn á 80. mínútu en þetta var fyrsta mark hans á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×