Enski boltinn

Chelsea í undanúrslit en Southampton er úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Chelsea, topplið ensku úrvalsdeildarinnar, og C-deildarliðið Sheffield United tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins í fótbolta. Chelsea sló út Derby en Sheffield United sendi úrvalsdeildarlið Southampton út úr keppninni.

Eden Hazard, Filipe Luis og Andre Schurrle skoruðu mörk Chelsea í 3-1 útisigri á enska b-deildarliðinu Derby County en leikurinn fór fram á Pride Park í Derby. Jose Mourinho hafði þarna betur gegn Steve McClaren sem er knattspyrnustjóri Derby.

Þetta var ekki eintóm gleði fyrir Chelsea þrátt fyrir þægilegan sigur því bæði Kurt Zouma og Didier Drogba fór meiddir af velli í leiknum.

Eden Hazard kom Chelsea í 1-0 strax á 23. mínútu eftir sendingu frá Cesc Fabregas og Filipe Luis kom Chelsea í 2-0 á 56. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Craig Bryson minnkaði muninn í 2-1 á 71. mínútu en Andre Schurrle innsiglaði sigurinn á 82. mínútu eða aðeins þremur mínútum eftir að Derby missti Jake Buxton af velli með rautt spjald. Þjóðverjinn fylgdi þarna á eftir skoti Frakkans Loic Remy.

Marc McNulty skoraði eina mark leiksins þegar enska C-deildarliðið Sheffield United sló út Southampton. Sigurmarkið kom á 63. mínútu leiksins. Southampton endaði leikinn tíu á móti ellefu en Florin Gardos fékk rautt spjald í lokin fyrir brot á markaskoraranum Marc McNulty.

Nigel Clough er knattspyrnustjóri Sheffield United en liðið fór alla leið í undanúrslit enska bikarsins á síðustu leiktíð þar sem liðið varð reyndar að sætta sig við tap á móti Hull.

Southampton hefur verið spútniklið ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili en blaðran virðist vera sprungin því þetta var fimmti tapleikur liðsins í röð.

Seinni tveir leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram á morgun en þá mætast Tottenham Hotspur og Newcastle United á White Hart Lane í öðrum leiknum en í hinum tekur b-deildarliðið Bournemouth á móti Liverpool í Bournemouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×