Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg í Pakistan

Atli Ísleifsson skrifar
Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg.
Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg. Vísir/AFP
Íbúar í pakistönsku borginni Peshawar eru byrjaðir að grafa þá sem létust í árás talibana á skóla í borginni fyrr í dag. 132 börn létust í árásinni og níu fullorðnir.

Syrgjendur flykktust í kringum kistur hinna látnu á meðan aðrir biðu fregna af þeim sem liggja sárir á sjúkrahúsum.

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg og her landsins réðst gegn uppreisnarmönnum í landshlutanum seinni part dags.

Þjóðarleiðtogar heims hafa fordæmt árásins og segja þessa mannskæðustu árás talibana til þessa viðbjóðslega. Talibanar í Afganistan hafa einnig neitað því að hafa átt aðild að árásinni.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði hryðjuverkamennina enn og aftur hafa sýnt fram á fólskulegt eðli sitt. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði þetta vera hryðjuverk og merki um heigulshátt.

Að sögn talsmanna pakistanska hersins var árásin á skólann gerð af sjö talibönskum vígamönnum sem allir klæddust sprengjuvestum.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að þeir hafi skorið sér leið inn á lóð skólans og haldið inn í áheyrendasal þar sem nemendur þreyttu próf.

Eftir það fóru þeir inn í hverja skólastofuna á fætur annarri og skutu nemendur jafnt sem kennara. Árásin stóð yfir í um átta klukkustundir.

Alls særðust 125 í árásinni áður en árásarmennirnir sjö höfðu allir verið skotnir til bana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×