Erlent

Minnst áttatíu börn látin í árás Talibana í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamennirnir hófu skothríð á skólabörn.
Vígamennirnir hófu skothríð á skólabörn. Vísir/AP
Að minnsta kosti 126 eru látnir eftir árás Talibana á skóla í Pakistan í morgun. Þar af hafa minnst 80 börn fallið í árásinni. Árásin var framkvæmd af fimm til sex vígamönnum sem hófu skothríð á samkomu barnanna í skólanum, sem rekinn er af pakistanska hernum.

Samkvæmt Sky News fer tala látinna sífellt hækkandi, en um fimm hundruð nemendur voru í skólanum.

Lögreglan á svæðinu segir hermenn hafa verið fljóta að bregðast við og skiptust þeir á skotum við vígamennina. Talsmaður Talibana segir tilefni árásarinnar vera aðgerðir hersins gegn Talibönum.

BBC segir frá því að vígamennirnir hafi verið í öryggisvarðabúningum og að þeir hafi gengið inn í sal skólans þar sem hermenn kenndu börnunum skyndihjálp. Börnin og kennarar hlupu inn í skólastofur en vígamenn eltu þau.

Auk barnanna eru kennarar og hermenn meðal hinna látnu. Vígamennirnir halda nú nemendum í gíslingu.

Talsmaður Talibana segir að með árásinni vilji þeir að hermenn finni sársauka þeirra. „Við völdum skóla hersins vegna þess að yfirvöld ráðast gegn fjölskyldum og konum okkar,“ segir Muhammad Umar Khorasani við Reuters fréttaveituna.

„Við viljum að þeir finni þann sársauka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×