Erlent

Nýtt samkomulag um vopnahlé í Luhansk

Atli Ísleifsson skrifar
Samið var um vopnahlé þann 5. september en það hefur margoft verið brotið.
Samið var um vopnahlé þann 5. september en það hefur margoft verið brotið. Vísir/AFP
Fulltrúar úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins hafa komist að samkomulagi um nýtt vopnahlé sem tekur gildi á föstudaginn.

Í frétt BBC segir að samkomulagið nái einungis til hersveita sem eiga í átökum í Luhansk-héraði. Deiluaðilar samþykkja að fjarlægja þungavopn frá svæðinu fyrir laugardaginn þó að ekki liggi fyrir um stærð hlutlausa svæðisins.

Fulltrúar deiluaðila eiga nú einnig í viðræðum um vopnahléssamkomulag sem myndi ná til Donetsk-héraðs. Mikil átök hafa geisað í kringum flugvöllinn í Donetsk síðustu daga.

Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu stýrðu friðarviðræðunum, en stofnunin hefur fylgst náið með ástandinu í Úkraínu allt frá því að átök hófust þar í apríl síðastliðinn.

Samið var um vopnahlé þann 5. september en það hefur margoft verið brotið og hafa rúmlega þúsund manns látist síðan og fjölmargir særst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×