Erlent

Sautján ríki höfða mál gegn Obama

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hvíta húsið fullyrðir að ákvörðunin sé innan valdsviðs forsetans.
Hvíta húsið fullyrðir að ákvörðunin sé innan valdsviðs forsetans. Vísir / AFP
Sautján ríki í Bandaríkjunum hafa höfðað mál á hendur Barack Obama, forseta landsins, vegna ákvörðunar hans um að gefa ólöglegum innflytjendum í landinu tækifæri á að fá dvalarleyfi.

Texas leiðir málsóknina sem höfðuð er fyrir alríkisdómstól í suðurhluta ríkisins.

Ríkin sautján vilja meina að Obama hafi farið út fyrir valdsvið sitt sem markað í stjórnarskrá landsins. Leitast er eftir því að fá dómstól til að fella ákvörðunina úr gildi en ekki er farið fram á neinar skaðabætur frá alríkisstjórninni.

Hvíta húsið fullyrðir að ákvörðunin sé innan þeirra marka sem gilda um vald forsetans.

Ákvörðun Obama gerir allt að 4,7 milljónum af þeim 11 milljónum einstaklinga sem búa ólöglega í Bandaríkjunum kleift að vera þar áfram án þess að eiga hættu á að vera vísað úr landi.

Flestir í hópnum eru foreldrar bandarískra ríkisborgara og einstaklinga sem eru með dvalarleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×