Innlent

Gera ráð fyrir annasamri nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bæði hefur lekið inn í heimahús og fyrirtæki.
Bæði hefur lekið inn í heimahús og fyrirtæki. Vísir/Vilhelm
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er búið að fara í nokkur útköll í kvöld vegna vatnsleka og gerir ráð fyrir því að fara í fleiri sambærileg útköll í nótt.

Bæði hefur lekið inn í heimahús og fyrirtæki, til að mynda Bókasafn Hafnarfjarðar eins og Vísir greindi frá fyrr í kvöld.

Mikið er um að niðurföll og ræsi séu stífluð, og að þess vegna leki inn. Snjór og krapi hindrar gjarnan að vatnið komist sína leið og er mikilvægt að fólk sjái til þess að ekkert stífli niðurföll.

Nokkur erill hefur verið hjá þeim tæplega 200 björgunarsveitarmönnum sem hafa verið að stöfum víða um land í kvöld. Sveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa sinnt á þriðja tug aðstoðarbeiðna af ýmsu tagi. Hurðar hafa fokið upp, gluggar brotnað, klæðningar og þakplötur hafa losnað og lausir munir fokið um byggingarsvæði.

Sveitir fyrir austan fjall hafa einnig haft í nógu að snúast, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu. Það hefur að mestu snúið að aðstoð við ökumenn í ófærð og lokanir vega.

Sveitir frá Ólafsfirði, Akranesi, Borgarnesi, Patreksfirði, Suðurnesjum, Vestmannaeyjum, Suðureyri og Ísafirði hafa verið að störfum í kvöld í verkefnum tengdum veðri. Ekki er vitað um slys á fólki eða stórtjón á þessari stundu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×