Enski boltinn

Gylfi lagði upp eitt enn eitt markið | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Wilfried Bony hafa náð frábærlega saman á tímabilinu og samvinna þeirra var enn einu sinni til fyrirmyndar í dag þegar Swansea og Crystal Palace skildu jöfn, 1-1, á Liberty Stadium í Wales.

Á 15. mínútu missti Palace boltann á hættulegum stað, Neil Taylor sendi boltann á Gylfa sem leit upp og fann Bony sem sneri á Brede Hangeland og skoraði með góðu skoti. Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þetta var áttunda stoðsending Gylfa í úrvalsdeildinni í vetur, en aðeins Cesc Fábregas hefur gefið fleiri, eða tíu talsins.

Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp og fengu ódýra vítaspyrnu tíu mínútum seinna sem Mile Jedinak skoraði úr, en þetta var fimmta markið sem Ástralinn skorar í deildinni og það þriðja í síðustu fjórum leikjum.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Gylfi frábæra sendingu á Shelvey sem tókst ekki að skora.

Seinni hálfleikur var rólegur, en Gylfi átti tvö hættuleg skot að marki; Julian Speroni, markvörður Palace varði annað en hitt fór rétt framhjá.

Stigið skilaði Swansea upp í 7. sætið, en Crystal Palace er í því 13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×