Erlent

47 féllu í sjálfsmorðsárás við skóla í Nígeríu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ránum á grunnskólabörnum mótmælt í Nígeríu.
Ránum á grunnskólabörnum mótmælt í Nígeríu. Vísir/Getty
47 hið minnsta féllu og 79 særðust í sjálfsmorðssprengjuárás utan við skóla í norðurhluta Nígeríu í dag. Árásarmaðurinn var dulbúinn sem nemandi innan veggja heimavistarskóla á vegum ríkisins í bænum Potiskum. Talsmaður lögreglu segir Boko Haram samtökin líklega bera ábyrgð á ódæðinu.

Sprengingin varð rétt fyrir klukkan átta í morgun að staðartíma utan við skrifstofu skólastjórans þar sem nemendur höfðu safnast saman í tilefni daglegra ræða kennaranna.

„Við vorum að bíða eftir að kennararnir kæmu og ræddu við okkur á samkomustaðnum þegar við heyrðum gríðarmikla sprengingu,“ sagði nemandinn Adamu Ibrahim við CNN.

Ekki liggur fyrir hve stór hluti hinna látnu eru nemendur. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á sprengingunni þótt Boko Hama samtökin séu talin líkleg. Íslömsku öfgasamtökin hafa áður látið til skarar skríða gegn menntastofnunum sem kenna í takt við vestræn gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×