Erlent

Rússneskt herlið aftur í Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Rúmlega fjögur þúsund manns hafa látið lífið í átökum úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna frá því í mars síðastliðinn.
Rúmlega fjögur þúsund manns hafa látið lífið í átökum úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna frá því í mars síðastliðinn. Vísir/AFP
Philip Breedlove, yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins, segir rússneskt herlið hafa haldið yfir landamærin til Úkraínu síðustu daga. Breedlove sagði að sést hefði til rússneskra skriðdreka, stórskotaliðs, loftvarnarkerfis og hermanna, þegar hann ræddi við fjölmiðla í Búlgaríu fyrr í dag.

Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað hafnað fullyrðingum um að hafa sent rússneskt herlið inn í austurhluta Úkraínu til að styðja við bakið á herliði aðskilnaðarsinna sem eru á bandi Rússlandsstjórnar. Aðskilnaðarsinnar hafa þó greint frá því að þeir hafi notið liðsinnis „sjálfboðaliða“ frá Rússlandi.

Mikil stórskotaliðsárás varð í úkraínsku borginni Donetsk í morgun, en þessi miðstöð iðnaðar í austurhluta Úkraínu, er að stærstum hluta á valdi aðskilnaðarsinna. Í frétt BBC segir að óljóst sé hvort úkraínski stjórnarherinn, herlið aðskilnaðarsinna eða fylkingarnar báðar hafi staðið fyrir árásunum.

Þá hafa einnig borist fregnir af átökum nærri borginni Luhansk.

Rúmlega fjögur þúsund manns hafa látið lífið í átökum úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna frá því í mars síðastliðinn.

Samið var um vopnahlé í byrjun september en það hefur margoft verið brotið og óttast margir að það fari endanlega út um þúfur í kjölfar kosninga aðskilnaðarsinna í byrjun mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×