Íslenski boltinn

Haukur Baldvinsson genginn í raðir Víkings

Tómas Þór Þórðason skrifar
Mynd/Víkingur
Haukur Baldvinsson er genginn í raðir Víkings í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en hann samdi við liðið til þriggja ára í kvöld.

Haukur er uppalinn hjá Breiðabliki og spilaði með liðinu í efstu deild frá 2008-2012 áður en hann gekk í raðir Fram.

Hann spilaði 19 deildarleiki með Fram í fyrra og alla leikina í sumar, en sagði upp samningi sínum við liðið eftir að það féll niður í 1. deild.

Í heildina á Haukur að baki 113 leiki með Breiðabliki og Fram í efstu deild og bikar og skorað í þeim 13 mörk.

Haukur var lykilmaður í Breiðabliksliðinu sem vann Íslandsmeistaratitilinn 2010 og þá vann hann bikarinn með liðinu árið áður.

Haukur er fjórði leikmaðurinn sem Víkingar fá til sín í vetur, en áður hafði liðið fengið Hallgrím Mar Steingrímsson frá KA, Andra Rúnar Bjarnason frá BÍ/Bolungarvík og Atla Fannar Jónsson frá ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×