Innlent

Héraðssaksóknarar munu rannsaka efnahagsbrotamál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðssaksóknari mun rannsaka efnahagsbrotamál.
Héraðssaksóknari mun rannsaka efnahagsbrotamál. vísir/daníel
Gert er ráð fyrir að stofnað verði héraðssaksóknaraembætti (saksóknar- og lögregluembætti), í drögum að nýju lagafrumvarpi sem er í smíðum í dómsmálaráðuneytinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að hið nýja héraðssaksóknaraembætti fari með ákæruvald vegna flestra þeirra brota sem ríkissaksóknari fer nú með ákæruvald fyrir héraðsdómi.

Einnig er gert ráð fyrir að embættið fari með rannsókn og saksókn alvarlegra skattalaga- og efnahagsbrota, brota gegn valdstjórninni og brota starfsmanna lögreglu. Embættið leysi þannig af hólmi embætti sérstaks saksóknara og héraðssaksóknaraembætti sem gert var ráð fyrir að yrðu stofnuð með lögum númer 88/2008.

Frumvarpið var samið á vegum réttarfarsnefndar að frumkvæði dómsmálaráðherra. Meðal annars á grundvelli minnisblaðs stýrihóps um mótun réttaröryggisáætlunar og vinnuhóps um framtíðarskipan ákæruvalds. Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að kveða á um framtíðarskipan ákæruvalds hér á landi og breytingar á fyrirkomulagi rannsókna á efnahagsbrotum.

Auglýst hefur verið eftir umsögnum um frumvarpið og á vef innanríkisráðuneytisins segir að hægt sé að senda umsagnir til 21. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×