Erlent

Fjölskylda dæmd til dauða í Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Mohammad Iqbal eiginmaður konunnar heldur á mynd af henni.
Mohammad Iqbal eiginmaður konunnar heldur á mynd af henni. Vísir/AFP
Fjórir ættingjar óléttrar konu, sem þeir börðu til dauða fyrir utan dómshús í Pakistan vegna ósættis með hjónaband hennar, voru dæmdir til dauða í dag. Um er að ræða föður hennar, bróðir, frænda og annað skyldmenni. Fimmta skyldmennið var dæmt til tíu ára fangelsisvistar og allir þurfa að greiða þúsund dali í sekt hver, rúmlega 120 þúsund krónur.

Bann er í gildi við aftökum í Pakistan, sem þýðir að þeir sem dæmdir eru til dauða þurfi í raun að sitja alla ævi í fangelsi. Lögmaður fjölskyldunnar segir að úrskurðinum verði áfrýjað, samkvæmt frétt á vef Huffington Post.

Hin 25 ára Farzana Iqbal, hafði farið í dómshús í borginni Lahore til að leita skjóls undan fjölskyldu sinni. Þar fyrir utan var hún barin með múrsteinum af ættingjum sínum. Á meðan á árásinni stóð grátbað eiginmaður hennar nærstadda lögreglumenn um hjálp. Þeir komu henni ekki til hjálpar.

Eiginmaður hennar Muhammed Iqbal, hefur viðurkennt að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína til að giftast Farzana, en hann slapp við refsingu þar sem sonur hennar fyrirgaf honum. Nánasti ættingi myrtrar konu getur fyrirgefið morðingjum hennar samkvæmt lögum í Pakistan.

Huffington Post segir að þar sem konur séu oft myrtar af nánustu ættingjum sínum þar í landi, hafi þúsundir sloppið við refsingu vegna slíkra morða.

Samkvæmt mannréttindasamtökum í Pakistan fjölluðu fjölmiðlar um 869 svokölluð heiðursmorð í fyrra. Í raun er þessi tala líklega mun hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×