Erlent

Saka lögregluna um að beita harðræði og ofbeldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan segir að 11 hafi verið handteknir í mótmælunum.
Lögreglan segir að 11 hafi verið handteknir í mótmælunum. Vísir/AFP
Stúdentar í London saka lögregluna um að hafa beitt harðræði og ofbeldi í mótmælum sem fram fóru í borginni í dag.

Talið er að hátt í 10.000 stúdentar hafi komið saman í miðborg London í dag til að mótmæla hærri skólagjöldum og niðurskurði á fjárframlögum hins opinbera til menntamála. Í frétt Guardian kemur fram að þetta séu stærstu mótmæli námsmanna í borginni síðan árið 2010. Þá hertóku mótmælendur skrifstofur Íhaldsflokksins í Millbank.

Mótmælin í dag byrjuðu friðsamlega en þegar fjöldinn kom að þinghúsinu í miðborg London kom til stympinga á milli mótmælenda og lögreglu. Nokkrir smærri hópar af mótmælendum brutu niður girðingar sem lögreglan hafði komið upp til að hindra að hópurinn kæmist að þinghúsinu.

Nokkur hundruð manns fóru svo að höfuðstöðvum Íhaldsflokksins og var að minnsta kosti handtekinn í átökum sem kom til þar á milli mótmælenda og lögreglu. Stúdentar saka lögregluna um að hafa beitt óþarfa harðræði og ofbeldi til að halda mótmælendum í skefjum.

Lögreglan í London segir þrjá lögreglumenn hafa slasast lítillega í aðgerðum dagsins og þá hafi 11 verið handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×