Erlent

Gorbachev varar við nýju köldu stríði

Atli Ísleifsson skrifar
Mikhail Gorbachev hélt ræðu við Brandenborgarhliðið í Berlín fyrr í dag.
Mikhail Gorbachev hélt ræðu við Brandenborgarhliðið í Berlín fyrr í dag. Vísir/AP
Mikhail  Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, segir að nýtt kalt stríð kunni að vera í uppsiglingu útaf versnandi samskiptum milli Rússlands og vesturveldanna. Hann gagnrýnir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að bregðast ekki við vaxandi ófriði í heiminum.

Þetta kom fram í máli Gorbachev á málþingi í Berlín í Þýskalandi í dag en þess er nú minnst þar í landi að 25 ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Gorbachev sagði það vera áhyggjuefni hversu illa stjórnmálamönnum hafi tekist að bregðast við breyttri heimsmynd á síðustu áratugum.

„Það er mikið áhyggjuefni að horfa upp á blóðbað í Evrópu og Miðausturlöndum á sama tíma og samtal milli stórveldanna hefur stöðvast. Heimurinn er á barmi nýs kalds stríðs og sumir segja að það sé jafnvel þegar hafið.

Þótt ástandið sé svo eldfimt sem raun ber vitni verðum við þess ekki vör að mikilvægasta alþjóðastofnunin, öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, gegnu neinu hlutverki eða grípi til neinna afgerandi ráðstafana.“

Spenna milli Rússlands og vesturveldanna hefur versnað mikið í kjölfar deilunnar um Úkraínu og ákvörðun Rússlandsstjórnar að innlima Krímskaga.

„Teikn eru á lofti um að ef haldið verður áfram á sömu braut gætu samskipti okkar beðið varanlegan skaða, en þau hafa hingað til verið til fyrirmyndar. Höfum hugfast að ef bræðralag Rússa og Þjóðverja rofnar er öryggi Evrópu ógnað,“ sagði hinn 83 ára Gorbachev.

Rúmlega fjögur þúsund manns hafa látið lífið síðustu mánuði í átökum milli úkraínska stjórnarhersins og aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem eru á bandi Rússlandsstjórnar.

Samið var um vopnahlé í byrjun septembermánuðar en það hefur margoft verið brotið og óttast menn að kosningar aðskilnaðarsinna um síðustu helgi komi til með að leiða til að átök blossi fyrir alvöru upp á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×