Innlent

Var að tala við eiginmanninn í síma þegar bíllinn valt

Gissur Sigurðsson skrifar
Hin slösuðu voru flutt á slysadeild.
Hin slösuðu voru flutt á slysadeild. Vísir/Vilhelm
Samtal í farsíma varð til þess að fólki í neyð var komið fyrr til hjálpar en annars hefði orðið. Kona, sem var farþegi í bíl sem ekið var eftir þjóðveginum í grennd við Búðardal seint í gærkvöldi var að tala í farsíma við eiginmann sinn í Reykjavík, þegar maðurinn heyrði allt í einu skruðninga og sambandið rofnaði.

Þegar ítrekaðar tilraunir hans til að ná aftur sambandi báru ekki árangur, hringdi hann í neyðarlínuna,  sem sendi lögreglu, sjúkrabíl og tækjabíl þegar af stað, en staðsetning slyssins var enn óljós. Síðan hringdi vegfarandi, sem gat gefið nákvæmar upplýsingar um það.

Umræddur bíll hafði oltið út af veginum og konan og ökumaðurinn bæði slasast. Þau voru bæði flutt með sjúkrabíl á slysadeild Landsspítalans í Reykjavík, en munu ekki vera lífshættulega slösuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×