Innlent

Heimilin greiða tugi milljarða til heilbrigðismála

Heimir Már Pétursson skrifar
Samkvæmt þjóðhagsreikningi fyrir síðasta ári stóðu heimilin undir 19,2 prósentum framlaga til heilbrigðismála og greiddu 32 milljarða til málaflokksins.
Samkvæmt þjóðhagsreikningi fyrir síðasta ári stóðu heimilin undir 19,2 prósentum framlaga til heilbrigðismála og greiddu 32 milljarða til málaflokksins.
Heimilin í landinu stóðu beint undir rúmum 19 prósentum af öllum útgjöldum til heilbrigðismála á síðasta ári eða 32 milljörðum króna. Heildarútgjöld á mann til heilbrigðismála hafa dregist saman um 10 prósent frá hruni.

Í þjóðhagsreikningi Hagstofunnar fyrir síðasta ár kemur glögglega fram hvernig hrunið gerbreytti aðstæðum í afkomu hins opinbera. Þannig versnaði afkoma ríkissjóðs gífurlega á árunum 2008 og 2009.

Afkoman var jákvæð um 3 prósent af landsframleiðslu árið 2007 en hrundi niður í að vera neikvæð um 12 prósent af landsframleiðslu árið 2008. Síðan þá hafa orðið töluverð umskipti á stöðu ríkissjóðs, sem skánaði strax á árinu 2009 en þó sérstaklega á árunum 2011,  2012 og 2013. Þannig var hallinn á ríkissjóði 32 milljarðar króna í fyrra samanborið við 65 milljarða árið 2012.

Það má líka finna athygliverðar staðreyndir í þjóðhagsreikningi um framlög til stærstu málaflokkana sem nú eru helst í umræðunni, heilbrigðismála og menntamála og hvað ríkissjóður setur í þessa málaflokka annars vegar og hvað heimilin í landinu greiða beint til þeirra hins vegar.

Heilbrigðismál eru einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera og er líka ótrúlega stór útgjaldaliður heimilanna í landinu. Á síðasta ári voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 165 milljarðar króna, eða 8,8 prósent af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 133 milljarðar en heimilin greiddu á því ári 32 milljarða til heilbrigðismála eða 19,2 prósent af heildarútgjöldum til þess málaflokks.

Í fyrra jukust útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála um 7,9 prósent og voru 412 þúsund krónur á mann. Engu að síður voru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála á síðasta ári 10 prósent minni en árið 2008 á verðlagi ársins 2013. Þarna vantar því um 13 milljarða upp á að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafi verið þau sömu í fyrra og þau voru á hrunárinu 2008.

Heimilin standa líka undir töluverðum kostnaði við fræðslumál. Heildarútgjöldin til þeirra á síðasta ári voru 146 milljarðar, þar af greiddu heimilin 14 milljarða eða 9,7 prósent. Heildarútgjöld hins opinbera til fræðslumála árið 2013 voru 406 þúsund krónur á mann og hafa minnkað um 13 prósent að raunvirði frá árinu 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×