Innlent

Heimilin standa undir 19 % af framlögum til heilbrigðismála

Heimir Már Pétursson skrifar
Þrátt fyrir mikla aukningu framlaga til heilbrigðismála á síðasta ári voru framlögin enn 10 prósent minni að raungildi en þau voru árið 2008. Þá leggja heimilin til um 19 prósent af framlögum til heilbrigðismála eða rúma 30 milljarða króna í fyrra.

Í þjóðhagsreikningi Hagstofunnar fyrir síðasta ár kemur glögglega fram hvernig hrunið gerbreytti aðstæðum í afkomu hins opinbera.

Þannig versnaði afkoma ríkissjóðs gífurlega á árunum 2008 og 2009, en á meðfylgjandi i mynd sést hrunið í hnotskurn.

Á súlunum sést afkoma ríkis og sveitarfélaga en línan sýnir hvernig afkoma ríkissjóðs fer úr að vera jákvæð sem nemur 3,5 prósentum af landsframleiðslu árið 2007 og hrynur niður í að vera neikvæð um 12,5 prósent árið 2008.

Eða úr 70 milljarða afgangi í 200 milljarða halla. Þótt staðan sé enn erfið er þó greinilegt að stjórnvöldum hefur á undanförnum fjórum árum tekist að rétta dæmið heldur við, en í fyrra var afkoman neikvæð sem nemur 1,8 prósenti af landsframleiðslu.

Útgjöld til heilbrigðismála eru einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera. En þótt útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins hafi verið aukin um 10 milljarða í fyrra, eru þau samt enn 10 prósent lægri á verðlagi síðasta árs en þau voru hrunárið 2008.

Þarna vantar því um 13 milljarða upp á að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hafi verið þau sömu í fyrra og þau voru á hrunárinu 2008.

í þjóðhagsreikningi kemur hins vegar fram athygliverð staðreynd um framlög heimilanna til heilbrigðismála. Á síðasta ári voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 165 milljarðar króna, eða 8,8 prósent af landsframleiðslu.

Þar af var hlutur hins opinbera 133 milljarðar en heimilin greiddu á því ári 32 milljarða til heilbrigðismála eða 19,2 prósent af heildarútgjöldum til þess málaflokks.

Í fyrra jukust útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála um 7,9 prósent og voru 412 þúsund krónur á mann. Engu að síður voru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála á síðasta ári 10 prósent minni en árið 2008 á verðlagi ársins 2013, eins og áður sagði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×