Innlent

Meint pílukast Sigmundar Davíðs vekur hneykslan og reiði

Jakob Bjarnar skrifar
Mikil reiði braust út á netinu, en menn töldu að Sigmundur Davíð stundaði það að kasta pílum í mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur.
Mikil reiði braust út á netinu, en menn töldu að Sigmundur Davíð stundaði það að kasta pílum í mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur.
Jónas Kristjánsson, bloggari og fyrrverandi ritstjóri, fer ófögrum orðum um forsætisráðherra, vegna grínatriðis Loga Bergmann, sem var á dagskrá í sjónvarpsþætti hans á föstudagskvöld. Fjölmargir eru til að taka undir með Jónasi, sem í fyrstu stóð í þeirri meiningu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stundaði það að kasta pílum í forvera sinn í forsætisráðuneytinu.

Jónas ritar harðorðan pistil á bloggsíðu sína og sparar hvergi stóru orðin; hann telur Sigmund Davíð ekki með réttu ráði og þetta athæfi megi flokkast sem bilun. „Hörmulega er komið fyrir kjósendum að hafa valið yfir sig frík.“

Á Facebooksíðu Jónasar er svo gefið í og eru margir til að taka undir með Jónasi, þetta sé fyrir neðan allar hellur og forsætisráðherra gangi ekki á öllum. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, stígur inn á völlinn og reynir að benda fólki á að Sigmundur Davíð hafi ekkert með þetta leikna atriði að gera. En á óhægt um vik.

„Það er alveg rétt, þar er við ramman reip að draga. Jónas hefur ekki verið gefinn fyrir að draga til baka rangfærslur eða stóryrði hingað til. Á því virðist engin breyting núna. Staðreyndin í málinu er auðvitað sú að þarna er um að ræða grínatriði sem aðstandendur þáttarins tóku upp og forsætisráðherra hvorki lék í né hafði séð fyrirfram,“ segir Jóhannes Þór í samtali við fréttastofu.

Þegar þeir sem tjá sig á Facebooksíðu Jónasar hafa áttað sig á því að þarna sé ekki forsætisráherra sjálfan að ræða, sem er að henda pílunum, heldur leikari, beina þau tali að því að atriðið sé ósmekklegt, og forsætisráðherra hljóti með einum hætti eða öðrum að hafa lagt blessun sína yfir það. Og Jónas spyr hvort málið sé eitthvað skárra við það að þarna sé um skipulagt grín að ræða?

„Nei, hann hafði ekki hugmynd um þetta. Til þess er leikurinn gerður. Að koma honum á óvart. Galið að láta sér detta í hug að það hafi verið þannig,“ segir Logi Bergmann sem veit ekki alveg hvaðan á sig stendur veðrið. „Og að þetta teljist ósmekklegt? Þetta er grín? Grín fer bara eftir sínum lögmálum. Ég óttast í þessum ritskoðunartendensum að fólk hætti að þora að reyna að vera fyndið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×