Innlent

„Samfylkingarfélagið í Reykjavík var auðvitað orðið stjórnlaust“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, grunar að ákveðnir menn innan Samfylkingarinnar hafi verið farnir að undirbúa stjórnarskipti strax í nóvember 2008.

Þetta kom fram í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær. Þar ræddi Geir meðal annars um atburðarásina sem leiddi til þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk fór frá í lok janúar 2009.

Björn Ingi Hrafnsson, stjórnandi þáttarins, spurði Geir meðal annars út í ástandið í Samfylkingunni dagana áður en ríkisstjórnin fór frá. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var þá formaður flokksins en vegna erfiðra veikinda var hún mikið fjarverandi í janúar 2009.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík stóð meðal annars fyrir fjölmennum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum til að ræða ríkisstjórnarsamstarfið og voru mikil mótmæli þar fyrir utan.

„Samfylkingarfélagið í Reykjavík var auðvitað orðið stjórnlaust. Formaður flokksins var fjarverandi í janúar en hins vegar grunar mig að sumir menn í Samfylkingunni hafi verið byrjaðir að undirbúa stjórnarskipti strax í nóvember eða farnir að tala um það við einhverja í VG. Það er svona það nýjasta sem maður heyrir en það er nú rétt að þeir upplýsi það sjálfir við betra tækifæri,“ sagði Geir í gærkvöldi.

Björn Ingi spurði hann þá hverjir það væru sem hefðu verið byrjaðir að undirbúa stjórnarskipti.

„Einhverjir þarna sem hlupu í skarðið fyrir Ingibjörgu,“ svaraði Geir.

Ertu að tala um Össur?

„Ja, það gæti alveg verið hann, já.“

Að Össur hafi verið byrjaður að undirbúa nýja ríkisstjórn í nóvember?

„Mig grunar að þeir hafi verið byrjaðir að tala saman um þetta. Ég get alveg vel skilið að þeir í VG hafi verið gráðugir að koma í stjórn en mér fannst nú hitt svona heldur lakara að grafa undan stjórninni sem menn sátu, hvort sem það var nú Össur eða einhverjir aðrir. Hann var allavega framarlega í þessu þegar yfir lauk,“ sagði Geir.

Umræður Geirs og Björns Inga má sjá hér að ofan frá mínútu 19:45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×