Innlent

Jörgen segist eiga helming í húsinu sem hann leigði út

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Olga Genova segir fyrrum sambýlismann sinn, Jörgen Má Guðnason, hafa hent leigjendum á íbúð sinni við Hrísateig út. Hann hafi sjálfur leigt öðrum íbúðina og stungið tekjunum í eigin vasa. Jörgen hefur stefnt Olgu þar sem hann fullyrðir að íbúðin í Hrísateig sé að hálfu í hans eigu. Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Fyrir liggur samningur sem Olga undirritaði, en samkvæmt heimildum Vísis, segist Olga hafa verið þvinguð til þess að skrifa undir samninginn. 

Jörgen hefur verið ítrekað til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarin misseri þar sem fólk hefur sakað hann um svik og pretti. Meðal annars í tengslum við leigu á herbergjum í húsinu við Hrísateig sem tekist er á um. Jörgen var til umfjöllunar hjá DV þar sem rætt var við mann sem fór úr herbergi sem hann leigði í húsinu í tíu daga og þegar hann kom aftur var búið að leigja herbergið út til annarrar stúlku.

Vísir fjallaði um Jörgen í tengslum við notkun hans á léninu Parketslíparinn.is. Í frétt Vísis kom fram að Jörgen hafði haldið síðunni úti í óþökk Halldórs Sveinssonar sem er eigandi fyrirtækisins Parketslíparinn ehf. Halldór kærði Jörgen tvívegis til neytendastofu fyrir að nota lénið, því það væri villandi. Í frétt Vísis kom fram að heimildir væru fyrir því að Jörgen hefði ekki leiðrétt fólk sem taldi hann ranglega vera starfsmann Halldórs. Jörgen þvertók fyrir það í samtali við Vísi og þegar hann var spurður af hverju hann breytti ekki slóðinni á vefsíðu sinni sagði hann: „Ég reyndi að fá þá sem hýsa síðuna til að breyta henni, en það var ekki hægt.“

DV fjallaði um samskipti Olgu og Jörgens í júní. Í viðtali við Olgu kom fram að hún hefði kært Jörgen fyrir líkamsárás, líflátshótun, eignaspjöll, húsbrot, þjófnað og skjalafals. Hún hefur auk þess tilkynnt um eftirför, hótanir og ofsóknir sem og stefnt honum fyrir meiðyrði. 

Í viðtalinu líkti Olga sambúð með Jörgen við það að búa á eldfjalli. Hún sagðist hafa þurft að koma barni sínu í skjól til móður sinnar í Rússlandi en Olga er frá borginni Omsk í Síberíu. Í viðtalinu sagði Olga einnig frá því að hún ætti umrædda eign við Hrísateig algjörlega sjálf. Hún sagði Jörgen hafa bolað þeim leigjendum sem hún hafi samið við út úr íbúðinni og leigt öðrum íbúðina; sem greiddu leigu í hans vasa.

„Hann réðst inn í Hrísateig og rak út alla leigjendur sem höfðu gert samning við mig. Hann hirti alla leiguna þrátt fyrir að ég sé hundrað prósent eigandi eignarinnar. Öll lán sem hvíla á Hrísateig eru í mínu nafni. Samkvæmt kaupsamningi er ég löggiltur eigandi,“ sagði Olga við DV í júní.

Olga sagðist hafa keypt íbúðina fyrir erfðafé en hún fékk íbúð í Rússlandi í arf. Hún tók einnig lán fyrir kaupum á húsinu. Hún segir að Jörgen hafi komist inn í íbúðina með því að þykjast koma með sófa til leigjanda. Hann hafi fengið lykla að láni og síðan bolað leigjendunum út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×