Innlent

Hnífsstungan á Stuðlum: Starfsmaðurinn slasaðist lítillega

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þórarinn Viðar Hjaltason, forstöðumaður Stuðla.
Þórarinn Viðar Hjaltason, forstöðumaður Stuðla.
„Ég á erfitt með að fara yfir þessa atburðarrás þar sem ég er bundinn trúnaði gagnvart skjólstæðingi okkar,“ segir Þórarinn Viðar Hjaltason, forstöðumaður Stuðla. Starfsmaður á meðferðarheimilinu Stuðlum í Grafarvogi var í gær stunginn með hnífi.

Ungur skjólstæðingur heimilisins stakk manninn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er málið á borði rannsóknardeildar.

„Það sem ég get sagt er að maður var stunginn með hníf og núna erum við að fara yfir alla öryggisþætti sem fylgja svona málum. Sem betur fer er þetta ekki eins slæmt og þetta leit út fyrir að vera í upphafi.“

Þórarinn segir að starfsmaðurinn hafi farið upp á slysavarðstofu í gær. Þar hafi hann verið saumaður lítillega og í framhaldinu fengið að fara heim.

„Starfsmaðurinn er því ekki alvarlega slasaður,“ segir Þórarinn og bætir við að vissulega sé ákveðin leit framkvæmd á skjólstæðingum Stuðla.

„Hinsvegar er þessi leit takmörkuðum háð og okkur leyfist ekki hvað sem er. Í þessu tilfelli fór fram leit en aðilinn náði samt sem áður að koma þessu vopni inn. Við leitum að öllu, hvort sem það eru fíkniefni eða vopn en við gerum það ekki að öllu jöfnu að láta krakkana berhátta sig.“

Þórarinn segir að aðeins sé gripið til þeirra aðgerða ef grunur vaknar um að skjólstæðingur hafi eitthvað að fela.

„Núna erum við aðallega að hlúa að starfsfólki okkar og því höfum við ekki náð að fara í almennilegt rýni á þennan atburð. Við eigum eftir að fara vel yfir þessa atburðarrás en ég tel í raun og veru að öryggisatriðin hér innanhús séu þokkalegu standi. Hinsvegar er alltaf ákveðin hætta á því, hvort um sé að ræða fangelsi eða stað eins og Stuðla, að fólk komist inn með fíkniefni eða vopn að þessu tagi.“

Hann segir að þrátt fyrir langa starfsemi Stuðla hafi aldrei áður komið upp svona tilfelli.

„Það þarf aftur á móti alltaf að skerpa á öryggisreglum til að við sofnum ekki á verði. Við eigum eftir að fara yfir þetta einslega með öllu starfsfólki og hér er öllum mjög brugðið.“

Þórarinn gerir ráð fyrir að starfsmaðurinn komi aftur til starfa.

„Hann fær bara þann tíma sem hann þarf og allan þann stuðning sem við getum veitt honum.“

Meðferðarstöðin Stuðlar hefur verið starfrækt síðan í september 1996.

Félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á að tiltæk séu heimili og stofnanir til að:

a. veita börnum móttöku í bráðatilvikum til að tryggja öryggi þeirra vegna meintra afbrota eða alvarlegra hegðunarerfiðleika,

b. greina vanda barna sem talin eru þurfa sérhæfða meðferð,

c. veita börnum sérhæfða meðferð vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og meintra afbrota.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×