Innlent

Starfsmaður á Stuðlum stunginn með hnífi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Atvikið átti sér stað í dag.
Atvikið átti sér stað í dag.
Starfsmaður á meðferðarheimilinu Stuðlum í Grafarvogi var í dag stunginn með hnífi. Ungur skjólstæðingur heimilisins stakk manninn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er málið á borði rannsóknardeildar. Engar frekari upplýsingar hafa fengist um rannsóknina.

RÚV greindi frá árásinni og hafði fréttastofan eftir heimildum að starfsmaðurinn væri ekki lífshættulega slasaður en að hann hefði verið stunginn í magann. Engar upplýsingar fást hinsvegar um málið hjá forstöðumanni Stuðla.

„Ég get ekki tjáð mig neitt um þetta mál,“ sagði Þórarinn Viðar Hjaltason, forstöðumaður heimilisins, í samtali við Vísi nú undir kvöld.

Barnaverndarstofa rekur meðferðarheimilið en þar er auk meðferðardeildar sérstök neyðarvistun. Þar geta lögregla og barnaverndaryfirvöld vistað unglinga í neyðartilfellum á meðan starfsmenn barnaverndarnefndar undirbúa frekari úrræði. Slík vistun getur aldrei varað lengur en fjórtán daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×