Innlent

Mannleg mistök ástæða þess að Brúarfoss rak stjórnlaust að bryggju

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Nefndin telur einnig að skort hafi verulega á góð og örugg samskipti milli stjórnenda þegar ljóst var að skipið svaraði ekki stjórntökum.“
„Nefndin telur einnig að skort hafi verulega á góð og örugg samskipti milli stjórnenda þegar ljóst var að skipið svaraði ekki stjórntökum.“ Vísir/GVA
Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa sem birt var í dag er fjallað um atvik sem átti sér stað í Klettahöfn í janúar í fyrra en þá rak flutningaskip Eimskipa, Brúarfoss, stjórnlaust að bryggju í Sundahöfn. Í skýrslunni segir orðrétt:

„Skipverjar voru búnir að láta sleppa öllum landfestum um kl. 07:05 og hafnarstarfsmenn fóru strax af vettvangi þegar því var lokið. Þegar skipstjóri ætlaði að fara að beita aðalvél virkaði stigningin ekki fyrir skiptiskrúfuna og skipið fór að reka stjórnlaust til vesturs í höfninni. [...] Haft var samband við vélarúm en ekki kom í ljós hvað var að. Brúarfoss rakst, kl. 07:08, með stjórnborðshornið á stefni Dettifoss sem einnig lá við Klettsbakka. Við það skemmdist rekkverk á Brúarfossi og minniháttar skemmdir urðu á stefni Dettifoss.“

Skipið snerist í höfninni svo að skutur þess stefndi til norðvesturs og beint á bryggjuna. Skipstjórinn reyndi að koma skipinu á milli bryggjukanta en það tókst ekki.

Verulega skorti á góð og örugg samskipti milli stjórnenda

„Kl. 07:10 voru bæði akkeri látin falla en ekki tókst að stöðva skipið og um kl. 07:15 lenti það með skutinn nokkuð harkalega á tréhluta bryggjunnar á Korngarðinum. Skuturinn braut sig um fjóra metra inn í bryggjuna [...] en um þetta leyti fóru stjórntök að virka en skemmdir urðu á stýri skipsins. Brúarfoss var því fastur með skutinn inn í bryggjunni.“

Dráttarbáta þurfti til að losa skipið sem komu á staðinn 25 mínútum eftir áreksturinn við bryggjuna. Brúarfoss var svo dreginn að bryggju við Klettsbakka.

Í áliti rannsóknarnefndarinnar í lok skýrslunnar segir:

„Orsök atviksins er röð mannlegra mistaka og að ekki var farið eftir öryggisreglum skipsins um brottför úr höfn. Nefndin telur einnig að skort hafi verulega á góð og örugg samskipti milli stjórnenda þegar ljóst var að skipið svaraði ekki stjórntökum.

 

Sérstök ábending:

 

Nefndin hvetur stjórnendur skipa til að tileinka sér notkun gátlista við störf sín og nota staðlað samskiptakerfi milli starfsstöðva til að tryggja öryggi við komu og brottfarir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×