Innlent

Rúmlega fjörutíu prósent andvíg byggingu mosku

Stefán Árni Pálsson skrifar
Meirihluti var hlynntur því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.
Meirihluti var hlynntur því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Meirihluti landsmanna er hlynntur því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi. MMR kannaði á dögunum afstöðu Íslendinga til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 64,4% vera fylgjandi því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar en 9,5% voru því andvíg. Hins vegar voru skiptar skoðanir á því hvort að önnur trúfélög ættu að fá að byggja trúarbyggingar á Íslandi.

Þannig sögðust 49,2% vera fylgjandi því að Ásatrúarfélagið fái að byggja, 36,5% voru fylgjandi því að Búddistafélagið fái að byggja, 31% voru fylgjandi því að Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan fái leyfi og 29,7% voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að reisa sér hús á Íslandi.

Mun færri sögðust andvígir því að Þjóðkirkjan fengi að byggja trúarbyggingar en Félag múslima á Íslandi.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 9,5% vera andvíg því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi, borið saman við að 42,4% sögðust andvíg því að Félag múslima fengi það.

mynd/mmr

Spurt var: „Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að eftirfarandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi? 
-með trúarbyggingum er átt við byggingar svo sem moskur, hof, kirkjur og musteri.“
Svarmöguleikar voru: Mjög andvíg(ur), Frekar andvíg(ur), Hvorki né, Frekar fylgjandi, Mjög fylgjandi og Veit ekki/vil ekki svara.

Samtals tóku 92,4% afstöðu til spurningarinnar (þ.e. tóku afstöðu til amk. eins trúfélags)

Þegar afstaða til þess að mismunandi trúfélög fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi var skoðuð eftir stuðningi við stjórnmálaflokka komu ljós skiptar skoðanir á milli fylgjenda mismunandi stjórnmálaflokka. 

Þannig benda niðurstöðurnar til þess að þeir sem styðja Framsóknar og Sjálfstæðisflokkinn geri frekar greinarmun á Þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum en þeir sem styðja aðra flokka. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 79,2% vera fylgjandi því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi en 15,3% voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbygginar á Íslandi. 

Meðal Sjálfstæðismanna sögðust 67,0% vera fylgjandi því að Þjóðkirkjan fái að reisa trúarbyggingar á Íslandi og 12,5% voru fylgjandi því Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar.

Til samanburðar sögðust 70,8% þeirra sem studdu Samfylkinguna vera fylgjandi því að Þjóðkirkjan fái að byggja trúarbyggingar á Íslandi og 52,6% voru fylgjandi því að Félag múslima á Íslandi fái að byggja trúarbyggingar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.