Innlent

Vill beinagrind steypireyðar til Húsavíkur

Atli Ísleifsson skrifar
Steypireyðurin sem um ræðir rak á land í landi Ásbúða á Skaga í lok ágústmánaðar 2010.
Steypireyðurin sem um ræðir rak á land í landi Ásbúða á Skaga í lok ágústmánaðar 2010. Mynd/Valur Örn Þorvaldsson
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að beinagrind steypireyðar sem rak á land á Skaga árið 2010 verði komið fyrir á Hvalasafninu á Húsavík.

Kristján hefur lagt fram fyrirspurn til Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem hann spyr hver séu áform ráðherra um staðsetningu beinagrindarinnar.

Kristján segir marga hafa minnst á beinagrind steypireyðarinnar nú í kjördæmaviku og vilji fá hana til Húsavíkur. „Hvalasafnið er reiðubúið að taka á móti beinagrindinni, en Bandaríkjamaður hefur meðal annars stutt verkefnið gagnvart því að taka á móti beinagrindinni og bæta við húsi gerist þess þörf,“ segir Kristján í samtali við Vísi.

Kristján segir að allt hafi verið gert til að vernda beinagrindina á sínum tíma og hún unnin á einhvern ákveðinn hátt sem hann kunni þó ekki nákvæm skil á. „Beinagrindin er til og ég er að spyrja ráðherra af hverju beinagrindinni hafi ekki verið valinn staður á fyrsta og merkasta hvalasafni landsins á Húsavík, höfuðborgar hvalaskoðunar í Evrópu.“

Steypireyðurin sem um ræðir rak á land í landi Ásbúða á Skaga í lok ágústmánaðar 2010. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að verja tveimur milljónum króna til að ná beinagrind hvalsins og verka hana til geymslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

„Í kjölfarið verður skoðað hvar best sé að geyma beinagrindina til lengri tíma og munu umhverfisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið fjalla um málið að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands,“ sagði í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2010.

Hvalrekar sem þessi eru mjög sjaldgæfir viðburðir hér á landi, en heila steypireyði hefur afar sjaldan rekið á land hér en aðeins er vitað um tvö óstaðfest tilvik frá 1980. Talið er að stofn steypireyðar hér við land sé innan við þúsund dýr. „Engin beinagrind eru til af steypireyði í landinu og örfáar til í heiminum og því er verðmæti og sýninga- og fræðslugildi slíkrar beinagrindar mjög mikið,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins frá 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×