Fótbolti

Hannes: Brennum okkur ekki því sama og síðast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson segir að leikmenn íslenska landsliðsins séu minnugir þess hvað gerðist í undankeppni síðasta stórmóts í knattspyrnu.

Þá byrjaði Ísland með 2-0 sigri á Norðmönnum heima en hélt svo til Kýpurs þar sem strákarnir máttu þola 1-0 tap. Það kom þó ekki að sök að lokum og Hannes segir að það ríki frábær stemning í hópnum eftir glæsilegan 3-0 sigur á Tyrklandi í síðasta mánuði.

„Það eru forréttindi að vera í liðinu á svona tímum. En þjálfararnir minna okkur reglulega á síðustu undankeppni þar sem við byrjuðum líka vel en töpuðum svo næsta leik á útivelli gegn liði sem við töldum okkur eiga góðan möguleika á að vinna,“ segir Hannes.

„Við ætlum því ekki að brenna okkur á því sama og síðast. Við berum virðingu fyrir verkefninu og vitum að þetta verður gríðarlega erfiður leikur. Við ætlum að gera allt sem við getum til að sigra en til þess þurfum við að eiga flottan leik.“

Lettar hafa lagt ríka áherslu á varnarleik í síðustu leikjum sínum en Hannes segir ómögulegt að spá fyrir um hvort hann fái mikið að gera í íslenska markinu.

„Maður hefur aldrei hugmynd um það fyrirfram hvernig leikir munu þróast. Oft fær maður mest að gera í þeim leikjum sem maður bjóst við að yrðu rólegir. Ég verð því búinn undir hvað sem er en reikna með að það muni eitthvað reyna á mig í þessum leik.“


Tengdar fréttir

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×