Innlent

„Ráðherra reynir að skjóta sendiboðann“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra. Vísir/Pjetur
„Sérhagsmunirnir hafa sterka stöðu á Alþingi.“ Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, við sérstakar umræður um samkeppni í mjólkuriðnaði sem fóru fram á Alþingi í morgun.

Upphafsmaður umræðunnar var Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem sagði reyndar að umræðan væri í sínum huga frekar um samkeppnisleysi. Til andsvara var Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra.

Guðmundur sagði að það hefði algjörlega mistekist í tilfelli mjólkuriðnaðarins að vernda þá litlu gegn ofríki hinna stóru, eins og samkeppnislög eiga að gera. Hann sagði landbúnaðarkerfið úrelt og þunglamalegt enda hefði því verið komið á þar sem talsverður ótti hafi verið við offramleiðslu. Það sé hins vegar breytt í dag þar sem framboð anni ekki eftirspurn og því þurfi að endurskoða kerfið og innleiða samkeppni.

Landbúnaðarráðherra sagði að búvörusamningar myndu renna sitt skeið á þessu kjörtímabili og að endurskoða eigi þá vegna þess. Hann sagði þó að mjólk væri sérstök vara í eðli sínu og að óhemju miklar sveiflur væru viðvarandi í mjólkuriðnaði, bæði hvað varðaði verð og framleiðslu. Því þyrfti opinbera verðlagningu og framleiðslustýringu. Sigurður Ingi ítrekaði þó að hann styddi ekki brot á samkeppnislögum.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Vísir/Pjetur
Ráðherra svaraði ekki fyrir ummæli sín í Bítinu

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að það kerfi sem viðhaft væri í mjólkuriðnaði væri lausnamiðað og í þágu samvinnu og jafnaðar. Hann sagði að það þyrfti fyrst að skoða hvort kerfið hefði leitt til þess áður að mjólkurafurðir hefðu lækkað um 20-30% að raunvirði, eins og haldið hefur verið fram, á sama tíma og hagur bænda hefur vænkast.  

Lilja Rafney Magnúsdóttir, samflokkskona hans, tók í svipaðan streng og sagði hugmyndafræðina á bak við kerfið vera jafnaðarstefnu sem nýttist neytendum.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði svo að umtalsefni ummæli Sigurðar Inga í Bítinu í gærmorgun þar sem hann spurði hvaða tengsl fjölmiðlamenn, til dæmis starfsmenn úr Kastljósi, hefðu úr sinni fortíð:

„Þá er fullkomlega ósæmilegt, og til að bíta höfuðið af skömminni, þegar ráðherra reynir að skjóta sendiboðann [...] og dylgjar um þá sem flytja fréttirnar [...] krefst þess að hæstvirtur ráðherra segi hér í ræðustól hvað hann á við í fjölmiðlayfirlýsingum um tengsl fréttamanna Kastljóss,“ sagði Helgi meðal annars.

Sigurður Ingi svaraði þingmanninum ekki í ræðu sinni og sagði Helga ómálefnalegan:

„Hann kemur hingað með sitt hefðbundna, að skjóta og kannski spyrja seinna, jafnvel að sleppa því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×