Innlent

Landbúnaðarráðherra boðar endurskoðun landbúnaðarkerfisins

Heimir Már Pétursson skrifar
Landbúnaðarráðherra ætlar að skipa þverpólitíska nefnd og hefur óskað eftir því að Hagfræðistofnun geri úttekt á landbúnaðarkerfinu í heild sinni. Formaður Bjartrar framtíðar vill auka samkeppni í mjólkuriðnaði.

Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar hóf umræðu um stöðu Mjólkursamsölunnar á Alþingi í dag. Hann segir eðlilegt að þeir sem telji sig góða í að framleiða ákveðna vöru eins og jógúrt og fleira eigi að fá að spreita sig á því. En Samkeppniseftirlitið ákvað nýlega að sekta Mjólkursamsöluna um 370 milljónir króna fyrir samkeppnisbrot með misnotkun á markaði.

Guðmundur segir að það verði að vernda hina smærri gagnvart ofríki hinna stóru. Offramleiðsla sé ekki lengur vandamál.

Landbúnaðarráðherra minnti á að búvörusamningar muni renna sitt skeið á kjörtímabilinu og hann hafi beðið Hagfræðistofnun að skoða það kerfi sem hafi verið við lýði frá árinu 2004 og búist við skýrslu í þessum mánuði. Þá hyggðist hann skipa þverpólitíska nefnd til að endurskoða stefnuna í þessum málum. Mjólkurvörur séu um margt sérstakar og viðkvæmar vörur sem víðast hvar njóti verndar með framleiðslu- og verðstýringu.

Ráðherra segir fákeppni í verslun hefði haft sitt að segja um að mjólkuriðnaður fór ekki undir frjálsa samkeppni um síðustu aldamót. Guðmundur fagnaði boðun ráðherra á stofnun þverpólitískrar nefndar um málið en sagði að afurðarstöðvar í dag væru bara tvær og þær ynnu náið saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×