Enski boltinn

Fellaini: Van Gaal sagði aldrei að ég þyrfti að fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Belginn hárprúði þarf margt að sanna á Old Trafford.
Belginn hárprúði þarf margt að sanna á Old Trafford. vísir/getty
Marouane Fellaini, belgíski miðjumaðurinn í liði Manchester United, segir að Louis van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, hafi ekki reynt að ýta honum út um dyrnar í sumar.

Fellaini var sagður á leið frá Manchester United í sumar eftir arfadapra frammistöðu á sinni fyrstu leiktíð og þá staðreynd að Van Gaal ætlaði að hrista upp í leikmannahópnum.

Lokadagur félagaskipta rann í garð og að honum loknum var Belginn enn á mála hjá Manchester United. Talið er að ökklameiðsli hans hafi komið í veg fyrir að eitthvað lið keypti hann.

Fellaini segir svo ekki vera og að Van Gaal ætli að gefa honum tækifæri þegar hann snýr aftur eftir meiðslin í lok mánaðar.

Belginn skoraði sigurmarkið í síðasta æfingaleiknum í ágúst gegn Valencia og kom svo inn á sem varamaður gegn Swansea í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar áður en hann meiddist.

„Ég talaði við Van Gaal og hann sagði aldrei að ég þyrfti að fara. Hann sagði mikla samkeppni í liðinu, en ég fengi tækifæri til að sanna mig,“ segir Fellaini við hollenska blaðið Sport Wereld.

„Ég veit ég átti erfitt uppdráttar á síðustu leiktíð, en maður kemur sterkari til baka. Ég trúi á mig og minn leik.“

„Ég spilaði vel á HM og á undirbúningstímabilinu. Það var leitt að meiðast, en ég mæti aftur í lok mánaðarins,“ segir Marouane Fellaini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×