Enski boltinn

Routledge áfram hjá Swansea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Routledge í sigurleiknum gegn Manchester United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Routledge í sigurleiknum gegn Manchester United í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Vísir/Getty
Wayne Routledge, samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea City, hefur skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum við velska liðið. Routledge er því samningsbundinn Swansea til ársins 2018.

„Hann verðskuldar þetta,“ sagði Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea. „Hann hefur fundið sér samanstað, þar sem getur notið sín og sýnt hversu góður leikmaður hann er.“

Routledge þótti einn efnilegasti leikmaður Englands á sínum yngri árum, en hann sló í gegn hjá Crystal Palace. Það rættist hins vegar ekki úr honum eins og efni stóðu til, en Routledge þvældist á milli liða á Englandi áður en hann endaði hjá Swansea árið 2011.

Routledge hefur verið fastamaður í liði Swansea í úrvalsdeildinni undanfarin ár, en hann hefur byrjað alla deildarleiki liðsins á tímabilinu til þessa.

Swansea sækir Sunderland heim á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×