Enski boltinn

Lampard til í að vera lengur hjá Manchester City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frank Lampard skoraði gegn Chelsea um síðustu helgi.
Frank Lampard skoraði gegn Chelsea um síðustu helgi. vísir/getty
Frank Lampard, miðjumaður Manchester City, segist opinn fyrir þeirri hugmynd að framlengja lánssamning sinn við liðið um nokkra mánuði til viðbótar.

Lampard er í eigu New York City FC, nýs liðs í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu, sem City er hlutaeigandi að, en hann átti upphaflega að halda til Bandaríkjanna í janúar.

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Man. City, hefur gælt við þá hugmynd undanfarna daga að halda Lampard lengur, en MLS-deildin hefst ekki fyrr en í mars.

„Það er auðvitað félagið sem ákveður það. Það er ekki mitt að segja hvað verður. Ég æfi bara og spila eins vel og ég get, síðan sjáum við hvað gerist. Ég skrifaði undir samning fram í janúar og meira get ég ekki sagt að svo stöddu,“ segir Lampard í viðtali við Sky Sports.

Það kom mörgum á óvart þegar Lampard ákvað að spila fyrir annað lið í ensku úrvalsdeildinni eftir þrettán mögnuð ár á Stamford Bridge.

„Þetta hafa verið auðveld vistaskipti. Mér líður virkilega vel hérna. Þetta er mjög ólíkt Chelsea, en strákarnir eru skemmtilegir og þeir hafa tekið vel á móti mér,“ segir Frank Lampard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×