Innlent

"Felst einföldunin í að tólf sé einfaldari tala en sjö?“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir flytur ræðu sína.
Katrín Jakobsdóttir flytur ræðu sína. vísir/ernir
„Tvö virðisaukaskattsþrep verða.. tvö virðisaukaskattsþrep. Ef ég hef reiknað þetta rétt er þetta fækkun um núll skattþrep. Eða felst einföldunin í að tólf sé einfaldari tala en sjö?“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld og gagnrýndi þar með nýtt fjárlagafrumvarp sem lagt var fram í gær.

Í frumvarpinu er meðal annars áætlað að lægra þrep virðisaukaskatts hækki úr sjö prósentum í tólf og efra þrepið lækki úr 25,5 prósentum í 24 prósent þann 1. janúar á næsta ári. Þó kemur fram í frumvarpinu sjálfu að lægra þrep hækki í ellefu prósent en er það villa í frumvarpinu sem verður lagfærð.

„Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu ráðherrans en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að það er búið ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember? Ég bíð spennt,“ sagði Katrín.

Hækkunin á lægra virðisaukaskattsþrepinu þýðir að virðisaukaskattur á matvæli hækkar um fimm prósentustig og samkvæmt greiningu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið þýðir það að matarkostnaður fjögurra manna fjölskyldu hækkar um 42.240 krónur á ári. Sagði hún þessa hækkun á matarskatti vekja furðu.

„Meðal ýmissa tíðinda fjárlagafrumvarpsins er hækkun á matarskatti. Hæstvirtur forsætisráðherra kallaði slíka hækkun „aðför að lágtekjufólki“ árið 2011. Núna leggur hæstvirtur fjármálaráðherra þetta til, væntanlega með stuðningi hæstvirts forsætisráðherra. Þannig að nú er aðförin kannski ekki lengur aðför en kannski skýrist þetta meðan við fylgjumst með merku leikriti stjórnarflokkanna þar sem þeir togast á um áformin.“




Tengdar fréttir

"Ríkisstjórn ríka fólksins“

"Barnlaust launafólk jafnt og barnafjölskyldur munu því bera hækkunina óbætta. Samt kiknar Framsóknarflokkurinn í hnjánum og virðist ætla að beygja sig í duftið til þess að matarskatturinn nái fram að ganga.“

Matarskattur mun hækka um fimm prósentustig á næsta ári

Neðra þrep virðisaukaskatts hækkar úr sjö prósentum í tólf prósent á næsta ári, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem dreift var á Alþingi í gær. Efra þrep mun lækka úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Áætlað er að barnabætur hækki en skerðingarhlutfall aukist




Fleiri fréttir

Sjá meira


×