Enski boltinn

Sló Cech úr liðinu og fær nýjan samning

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thibaut Courtois varð Spánarmeistari með Atlético í vor og er nú aðalmarkvörður Chelsea.
Thibaut Courtois varð Spánarmeistari með Atlético í vor og er nú aðalmarkvörður Chelsea. vísir/getty
Thibaut Courtois, markvörður Chelsea, upplýsti það eftir æfingu belgíska landsliðsins í gær að hann væri nálægt því að skrifa undir nýjan samning við Lundúnaliðið.

Eftir þrjár leiktíðir á láni hjá Atlético Madríd á Spáni er Courtois nú búinn að slá PetrCech úr liðinu hjá Chelsea og orðinn aðalmarkvörður Lundúnaliðsins.

Þetta svipar til þess þegar Cech sjálfur mætti á Stamford Bridge árið 2004 frá Rennes í Frakklandi og hirti markvarðarstöðuna af Ítalanum CarloCudicini sem þótti einn besti markvörður deildarinnar.

„Þetta er ekki klárt ennþá þar sem ég er hérna með landsliðinu. En þegar ég mæti aftur til Chelsea mun ég líklega skrifa undir nýjan samning,“ sagði Courtois við blaðamenn í morgun.

Courtois er búinn að byrja alla þrjá leiki Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á meðan Cech, sem varið hefur mark liðsins undanfarinn áratug, situr á varamannabekknum.

Eðlilega er mikið rætt og ritað um hugsanlega brottför tékkneska markvarðarins frá Chelsea enda um að ræða einn albesta markvörð heims undanfarin ár.

„Við tölum ekkert um þessa stöðu, en auðvitað er hann búinn að verja mark Chelsea í tíu ár þannig þetta er ekkert skemmtilegt fyrir hann. En þetta er ákvörðun sem stjórnin og þjálfarinn tóku,“ sagði Thibaut Courtois.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×