Innlent

Sigríður Dögg hættir sem ritstjóri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Vísir/Valli
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, sem gegnt hefur störfum ritstjóra á Fréttatímanum, hefur tekið að sér nýtt hlutverk. Sigríður Dögg er orðin þróunarstjóri Morgundags, útgáfufélags Fréttatímans. Jónas Haraldsson gegnir nú einn stöðu ritstjóra á vikublaðinu.

Sigríður Dögg greinir frá breytingum á Facebook-síðu sinni í dag þar sem fram kemur að undanfarna þrjá mánuði hafi hún verið í leyfi til að þróa hugmynd sem kviknað hafi út frá eigin pistli í febrúar.

„Hugmyndin er nú gríðarstór og heitir Inspiral.ly (inspirally.com) og mun ég fá tækifæri til að þróa verkefnið áfram með stuðningi Morgundags,“ segir Sigríður. Umfjöllun hennar um ísbíltúr með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vakti mikla athygli á sínum tíma.

Hún segir Fréttatímann rekinn með hagnaði sem sé afrek útaf fyrir sig á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

„Blaðið er senn fjögurra ára og hefur náð öruggri fótfestu. Nú er tækifæri til að færa út kvíarnar og leita leiða til að efla reksturinn enn frekar og er ég þakklát fyrir að vera falið það verkefni af eigendum Morgundags sem ég hlakka til að vinna með í þessari vegferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×