Innlent

Skemmtiþáttur Göngum til góðs á Vísi í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landssöfnun Rauða krossins á Íslandi, Göngum til góðs, er hafin. Söfnunin stendur til miðnættis á sunnudag, 7. september. Sérstakur skemmtiþáttur í tilefni söfnunarinnar verður í opinni dagskrá á Stöð 2 í kvöld og líka hér á Vísi.

Þátturinn hefst klukkan 19.20 en þar munu helstu listamenn þjóðarinnar skemmta áhorfendum með leik og söngatriðum. Má þar nefna Helga Björnsson og Reiðmenn vindanna, Kaleo, Sigríði Thorlacius, Hilmi Snæ og Þorstein Guðmundsson.

Umsjónarmenn eru Sindri Sindrason og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir.

Í ár er gengið til góðs til styrktar innanlandsverkefnum Rauða krossins, sem eru fjölmörg og brýn.

Vakin er sérstök athygli á nýbreytni á Íslandi, sem er „söfnunarappið“. Nú getur almenningur látið gott af sér leiða með því að safna fé í rafrænan bauk. Appið er að finna í App Store fyrir iPhone notendur og Google Play fyrir Android notendur. Leitarorðið er „söfnun.“

Opið er fyrir söfnunarsíma; hægt er að hringja í 904 1500 til að leggja fram 1500 krónur, 904 2500 til að leggja fram 2500 krónur og 904 5500 til leggja fram 5500 krónur. Þá er einnig minnt á söfnunarreikninginn, 0342-26-12, kt. 530269-2649.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×