Enski boltinn

Wilshere: Redknapp ætti að hafa smá samúð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jack Wilshere.
Jack Wilshere. vísir/getty
Jack Wilshere, miðjumaður Arsenal og enska landsliðsins í fótbolta, er orðinn þreyttur á endalausri gagnrýni í sinn garð, þá sérstaklega frá Jamie Redknapp sem starfar sem sérfræðingur Sky Sports.

Wilshere hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár vegna meiðsla og aðeins spilað 21 landsleik síðan hann kom fyrst við sögu hjá Englandi fyrir fjórum árum.

Hann hefur ekki náð þeim hæðum sem flestir bjuggust við og hafa fyrrverandi landsliðsmenn á borð við Paul Scholes, JamieCarragher og Jamie Redknapp gagnrýnt hann nokkuð harkalega undanfarna mánuði.

„Vandamál Jack Wilshere er Jack Wilshere. Hann er bara ekki að standa sig. Hann verður að taka meiri ábyrgð í leikjum eins og hann gerði fyrir tveimur árum. Afsakanir duga ekki lengur,“ sagði Redknapp um Wilshere á dögunum.

Þessi gagnrýni fór fyrir brjóstið á Wilshere sem finnst Redknapp eiga að sýna meiri skilning á stöðu Arsenal-mannsins. Redknapp glímdi sjálfur við mikið af meiðslum á sínum ferli og þurfti að leggja skóna á hilluna vegna þeirra aðeins 31 árs gamall.

„Ég hlusta á það sem fólk sem ég vinn með mér segir. En með fullri virðingu finnst mér að Redknapp ætti að hafa smá samúð. Hann var meira meiddur en ég,“ sagði Wilshere við blaðamenn eftir æfingu enska landsliðsins.

„Það er auðvelt fyrir hvern sem er að fara í sjónvarpið og segja að þessi og hinn eigi að gera hitt og þetta. En þegar litið er til baka þá var Redknapp jafnmikið meiddur og ég og kannski meira. Hann var samt aldrei meiddur á sama aldri og ég. Það tekur mikinn andlegan styrk að koma alltaf til baka.“

„Ég hlusta því ekkert á þegar menn í sjónvarpinu segja að ég eigi að gera hlutina svona eða öðruvísi. Ég hlusta á menn eins og landsliðsþjálfarann og Gary Neville - menn sem tala af viti og geta hjálpað mér að þróa minn leik,“ sagði Jack Wilshere.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×