Erlent

„Fjöldi hluta“ sundruðu vélinni í lofti

Atli Ísleifsson skrifar
MH17 vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu þann 17. júlí síðastliðinn.
MH17 vél Malaysia Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu þann 17. júlí síðastliðinn. Vísir/AFP
Hollenskir sérfræðingar segja að MH17-vél malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines hafi eyðilagst í lofti eftir að hafa orðið fyrir „fjölda hluta“ sem „hafi gatað vélina á miklum hraða“.

Í skýrslu Hollendinganna kemur fram að engar vísbendingar hafi komið fram um að um tæknileg eða mannleg mistök hafi verið að ræða.

Allir 298 sem voru um borð í vélinni fórust, en grunur leikur á að aðskilnaðarsinnar á bandi Rússlandsstjórnar hafi skotið vélina niður. Flestir hinna látnu voru Hollendingar.

Vélin var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur þann 17. júlí en var skotin niður í austurhluta Úkraínu milli Krasni Luch í Luhansk-héraði og Shakhtarsk í Donetsk-héraði.

Í frétt BBC kemur fram að hollensku sérfræðingarnir byggi rannsókn sína á upplýsingum úr flugrita vélarinnar, frá flugumferðastjórn, gervihnattamyndum og ljósmyndum af vettvangi þar sem brak vélarinnar lá dreift um stórt landsvæði í Úkraínu.

Segja þeir vélina hafa „hafa eyðilagst í lofti, líklegast vegna skemmda af völdum fjölda hluta sem komu að vélinni að utan og á miklum hraða.“

Úkraínsk stjórnvöld og vestrænir leiðtogar segja sterkar vísbendingar hafa komið fram um að aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu hafi skotið niður vélina með Buk-flugskeyti sem er sérhannað til að skjóta niður flugvélar sem fljúga í mikilli hæð.

Rússar hafa staðfestlega hafnað ásökunum um að hafa útvegað aðskilnaðarsinnum flugskeyti eða annars konar vopn.

Skýrslan sem birt var í dag er bráðabirgðaskýrsla en búist er við að lokaskýrsla verði birt innan árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×