Enski boltinn

Cruyff segir leikmann sem United vill fá ekki hafa neinn hraða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daley Blind var kjörinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í fyrra.
Daley Blind var kjörinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í fyrra. vísir/getty
Johann Cruyff, hollenska knattspyrnugoðsögnin, gagnrýndi landsliðsmanninn DaleyBlind harkalega eftir 3-1 tap Ajax gegn PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Blind spilaði allan leikinn á miðjunni, en hann getur bæði spilað á miðjunni og sem bakvörður. Þá var hann lykilmaður hjá hollenska landsliðinu sem náði þriðja sæti á HM.

Manchester United hefur verið orðað við hann í allt sumar, ekki síst vegna þess að Louis van Gaal þjálfaði hann hjá hollenska landsliðinu, en talið er að United þurfi að borga Ajax 20 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Blind var kjörinn besti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, en Cruyff er langt frá því að vera jafnhrifinn af honum og margir.

„Það spilaði enginn hjá Ajax almennilegan fótbolta á móti PSV. Menn þurfa að láta boltann ganga hratt á milli sín, en það er erfitt þegar þú ert með NickViergever og Daley Blind á miðjunni. Hvorugur þeirra hefur nokkurn hraða né hafa getu til að taka spretti,“ sagði Cruyff við Voetball International um tapið.

Þrátt fyrir orð Cruyffs er ekki ólíklegt að Blind verði orðinn leikmaður Manchester United áður en félagaskiptaglugganum verður lokað 31. ágúst.

Louis van Gaal vantar bæði varnarmenn og miðjumenn, en sem fyrr segir getur Blind leyst báðar stöður. Hann spilaði nánast jafnmarga leiki sem bakvörður og miðjumaður á síðustu leiktíð og var kjörinn besti leikmaður deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×