Erlent

Ólympíuskákmótinu lauk með andláti skákmanns

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Leikmaður skákliðs Seychelles-eyja hné niður og lést í dag, á lokadegi Ólympíuskákmótsins í Tromsö. Skákmaðurinn, Kurt Meier, fékk hjartaáfall en hann var 65 ára að aldri. Læknar á keppnisstað reyndu lífgunartilraunir sem mistókust.

Sonur Meirs tefldi við hlið hans þegar atvikið átti sér stað.

Mótið hafði staðið yfir í tólf daga og alla jafna voru 650 skákir í gangi samtímis í keppnissalnum. Flestum viðureignum dagsins hafði lokið þegar Kurt Meier hneig til jarðar. Margir viðstaddra brustu í grát í kjölfar fregnanna og nokkrir liðsfélagar Meiers eru sagðir hafa orðið vitni að andlátinu.

Mínútuþögn fór fram í lokaathöfn mótsins vegna sviplegs andláts seychelles-eyska skákmannsins.

Kínverjar urðu Ólympíumeistarar í opnum flokki og Rússar í kvennaflokki. Í opnum flokki hafnaði Ísland í 39. sæti og íslenska kvennaliðið í 55. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×