Erlent

69 létust í sprengingu í Kína

Bjarki Ármannsson skrifar
Sjúkraliðar á vettvangi í dag.
Sjúkraliðar á vettvangi í dag. Vísir/AP
69 manns fórust og tæplega tvö hundruð aðrir slösuðust í stórri sprengingu í bílahlutaverksmiðju í Austur-Kína í dag. Ríkisfréttaveitan Xinhua segir að fyrstu rannsóknir bendi til þess að ryksprenging hafi átt sér stað.

Fréttaveitan AP greinir frá því að þykkan, svartan reyk hafi lagt yfir nágrenni verksmiðjunnar í borginni Kúnsjan, um þúsund kílómetrum frá Peking. Á myndum ýmsra fréttasíðna má sjá sótsvört lík flutt úr rústum sprengingarinnar og nokkra eftirlifendur stíga um borð í sjúkrabíla í sundurtættum fötum.

Verksmiðjan vinnur hjólkoppa fyrir bílafyrirtæki á borð við General Motors. Samkvæmt tilkynningu kínverskra stjórnvalda voru fimm yfirmenn Zhongrong, fyrirtækisins sem rekur verksmiðjuna, lagðir í hald lögreglu vegna rannsóknar á slysinu.

Öryggisleysi á vinnustöðum er stórt vandamál í Kína. Þar í landi eru öryggisreglugerðir oft hunsaðar og opinbert eftirlit með þeim lélegt. Í júní í fyrra misstu 119 starfsmenn líf sitt í miklum bruna í kjúklingabýli í norðurhluta landsins. Þá fórust 62 þegar leiðsla sprakk í borg í austurhluta landsins í nóvember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×