Enski boltinn

Van Gaal ætlar að fækka í leikmannahópnum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Van Gaal mun skera niður
Van Gaal mun skera niður vísir/getty
Louis van Gaal knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United muni segja þeim leikmönnum sem hann hefur ekki not fyrir að þeir geti fundið sér nýtt félag eftir að liðið kemur heim til Englands.

Manchester United mætir Liverpool í úrslitum Guinness International æfingamótsins í Bandaríkjunum í kvöld og í kjölfarið mun liðið halda heim.

„Ég mun ákveða mig eftir þessa ferð,“ sagði Van Gaal. „Allir leikmennirnir fá að spila og ég veit meira en fyrir ferðina.

„Það er kannski aðeins of snemmt að dæma en það þarf maður að gera í fótbolta. Ég verð að gefa leikmönnum sem litlar líkur eru á að spila tækifæri til að fara annað.

„Þetta þarf að gera í tíma. Það er of seint að gera þetta 31. ágúst.

„Ég segi leikmönnunum þetta sjálfum en ekki ykkur (blaðamönnum),“ sagði Louis van Gaal.

Talið er líklegt að leikmenn á borð við Nani, Shinji Kagawa, Marounae Fellaini og Javier Hernandez gætu þurft að leita sér að nýju félagi áður en félagsskiptaglugginn lokar í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×